Elín Pjet. Bjarnason

 Safn verka Elínar Pjet. Bjarnasonar  (1924-2009)

Árið 2011 færðu systursynir Elínar, þeir Pjetur Hafstein Lárusson og Svavar Hrafn Svarvarsson Listasafni ASÍ veglega gjöf, en það voru flest þau verk sem Elín skildi eftir sig er hún lést árið 2009. Þetta eru um 550 verk; málverk, teikningar, grafík og freskur. Elín fæddist á Íslandi og ólst upp á Akureyri en bjó í Kaupmannahöfn frá 21 árs aldri til dauðadags. Hún nam myndlist við Listaháskólinn í Kaupmannahöfn; fyrst málalist hjá Vilhelm Lundstrøm 1945-50, síðan veggmyndagerð hjá Elof Risebye 1958-1959 og að lokum grafík hjá Holger J.Jensen 1962. Hún tók þátt í nokkrum sýningum á Charlottenborg á námsárunum og átti auk þess verk á tveimur Haustsýningum þar. Hún sýndi aðeins einu sinni í Reykjavík, en það var í Bogasal Þjóðminjasafns Íslands ásamt Vigdísi Kristjánsdóttur, vefara árið 1968. Hún var félagi í Kvindelige kunstneres samfund í Kaupmannahöfn og tók þátt í samsýningum þeirra. Fyrsta einkasýningin á verkum hennar var haldin í Listasafni ASÍ 2011, en sýnd voru verk úr á gjöfinni undir heitinu „Öll erum við eins konar trúðar.“ Hér fyrir neðan má lesa texta úr sýningarskrá sýningarinnar. 

Kristín G. Guðnadóttir

 Öll erum við eins konar trúðar

 Það er eitthvað óútskýranlega heillandi við verk Elínar Pjetursdóttur Bjarnason, þessarar leyndardómsfullu og hámenntuðu listakonu, sem aldrei hélt einkasýningu á verkum sínum þótt hún ynni að listsköpun alla ævi. Undir formföstu og oft björtu yfirborði verka hennar er einhver glóð; brennandi ástríða og stríðar tilfinningar. Andlit umbreytast í trúðsgrímur, fjólubláir draumar í martraðir.

Þegar heimstyrjöldinni síðari lauk og samgöngur á milli landa komust aftur í eðlilegt horf sigldi Elín til Kaupmannahafnar til að nema myndlist. Hún var þá 21 árs gömul og hafði dvalið í Reykjavík frá haustinu 1944 við nám í Handíða- og myndlistarskólanum. Árið 1945 var viðburðaríkt á listasviðinu í Reykjavík  og hefur án efa kynt undir áhuga hennar á því að gera myndlist að ævistarfi sínu. Þann 13. febrúar opnaði Kjarval sýningu í Listamannaskálanum þar sem hann sýndi stór landslagmálsverk m.a. frá Snæfellsnesi. Þegar dyr Listamannaskálans voru opnaðar biðu um 100 manns fyrir utan og ruddust inn í sýningarsalinn. Hófst nú hin harðasta keppni um það að fá fest kaup á myndum meistarans. Nánast öll verkin seldust á fyrsta hálftímanum og urðu margir frá að hverfa án þess að hafa tryggt sér mynd. Í pressunni mátti lesa að önnur eins hraðasala á málverkum hefði aldrei þekkst hér á landi enda væru vinsældir Kjarvals miklar. Þessi uppákomu má annars vegar skoða í ljósi stofnunar lýðveldisins 1944 en í verkum Kjarvals fann þjóðin táknmyndir ættjarðarástarinnar. Ísland var farsælda frón og Kjarval var túlkur þess. Hins vegar var þensla í hagkerfinu, borgarastéttin óx og dafnaði og húsakynni fóru batnandi en einnig var vaxandi áhugi á menningu og listum. Það var eftirspurn eftir myndlist, einkum verkum Kjarvals sem hafa verið skilgreind sem „einskonar löggildingarskjal á stöðu borgaralegs heimilis.“[1]

Það var skammt stórra högga á milli því síðsumars 1945 var haldin önnur tímamótasýning í Listamannaskálanum; abstraktsýning Svavars Guðnasonar. Svavar hafði verið innlyksa í Danmörku öll stríðsárin en kom heim með fyrstu ferð til að kynna löndum sínum það framsæknasta sem evrópsk myndlist hafði upp á að bjóða; sjálfsprottna abstraktlist. Kynngimögnuð og kraftmikil verk Svavars hlaðin innri spennu og krafti voru í senn ljóðræn og dramatísk en umfram allt litasinfóníur sem áttu sem engan


líka. Sýning Svavars hafði djúp og varanleg áhrif á listalífið og  var upphafið á samfelldri sögu abstraktlistar. Svavar var í framvarðarsveit danskrar myndlistar á stríðsárunum og þeir listamenn sem hann vann hvað mest með voru afgerandi í dönsku listalífi á eftirstríðsárunum.  Hér var mörkuð ný leið, nýtt upphaf sem ungt listafólk þurfti að taka afstöðu til hvert á sinn hátt.

Nokkur hópur Íslendinga af kynslóð Elínar og eldri hóf listnám í Kaupmannahöfn fljótlega eftir að stríðinu lauk, m.a. Ásgerður Búadóttir, Einar G. Baldvinsson, Gestur Þorgrímsson,  Hrólfur Sigurðsson, Karl Kvaran, Ólöf Pálsdóttir, Sigrún Guðjónsdóttir, Veturliði Gunnarsson og Vigdís Kristjánsdóttir sem voru við nám við hina ýmsu deildir Listaháskólans. Evrópa var í sárum eftir hörmungar stríðsins, listin jafnt sem lífið var orðið margslungnara og flóknara en áður og leitaði nýs jafnvægis, list hinnar nýju Evrópu var í deiglunni. Sjálfsprottin og tjáningarrík abstraktlist sem Svavar og danski Høst-hópurinn sáu sem myndmál samtímans þreifst samhliða natúralískri listsköpun en einnig mátti greina tilhneigingu sem síðar blómstraði sem geómetrísk abstraktsjón.

Þessi hópur íslenskra listnema tók ólíka afstöðu til samtímans og þeirra strauma sem efst voru á baugi hver eftir eigin sannfæringu en innan hópsins mátti finna abstraktmálara, fígúratífa málara, myndhöggvara, vefara og leirlistamenn. Öll sneru þau aftur heim og mótuðu íslenska listasögu nema Elín, sem ílengdist í Danmörku.

Elín hóf nám við Listaháskólann í Kaupmannahöfn haustið 1945 í málaradeild hjá Vilhelm Lundstrøm. (1893-1950) Það þótti sæta nokkrum tíðindum  þegar Lundstrøm var valinn prófessor í málaralist við Listaháskólann 1944 en hann gegndi embættinu til dauðadags. Lundstrøm var einn helsti fulltrúi kúbismans í danskri myndlist á árum fyrri heimstyrjaldarinnar og sló í gegn á Haustsýningunni 1917, en Kjarval átti einnig verk á þeirri sýningu. Lundstrøm var samtímis virtur af þeim hópi abstraktlistamanna, sem Svavar vann með á árum seinni heimstyrjaldarinnar og var gestur þeirra á hinni svokölluðu Tjaldsýningu, sem haldin var í tjaldi í Charlottenlund vorið 1941. Það sem einkennir verk Lundstrøm, er sterk og ákveðin línuteikning sem umlykur voldug form. Litafletir hans eru stórir og hreinir, verk hans hafa yfir sér klassískt, yfirvegað yfirbragð. Elín segir að Lundstrøm hafi verið mjög góður og nákvæmur kennari sem ekki talaði mikið. Hann hrósaði ekki nemendum sínum en fékk þá sjálfa til að hugsa.[2] Lítið er varðveitt af skólaverkum Elínar frá árunum 1945-1950 en í þeim má greina áhrif frá síðkúbismanum og formheimi Lundstrøms.

Elín ferðaðist mikið um Evrópu á námsárunum og síðar. Á árunum 1947-1950 heimsótti hún m.a. London, Amsterdam, Rómarborg, Mílanó og París sem gaf henni ríkuleg tækifæri til að kynnast myndlist samtímans sem og fjársjóðum fortíðarinnar. Hún lauk námi við Listaháskólann 1950 en þrátt fyrir góð ytri skilyrði fór listferill hennar hægt af stað, næstu fimm ár virðist hún hafa málað lítið eða eytt verkum sínum.

Um 1955, þegar geómetríska abstraktsjónin var framsæknasta liststefnan í Evrópu, tók listsköpun Elínar óvænta stefnu þvert á ríkjandi viðhorf; stórar, voldugar myndir af nöktum kvenkyns módelum verða til.  Ári síðar sýndi hún í fyrsta skipti opinberlega á Kunstnernes Efterårsudstilling í Charlottenborg verkið Figurkomposition (200 x 120 sm) sem sýnir tvær naktar konur en fyrir aftan þær stendur kyrtilklæddur maður. Á næstu árum vann hún fleiri stórar módelmyndir í svipuðum dúr. Haustið 1958 hóf Elín aftur nám við Listaháskólann að þessu sinni í veggmyndadeild skólans hjá prófessor Elof Risebye (1892-1961). Orðið Íslandsvinur hefur gjarnan verið notað um útlendinga sem hafa reynst Íslendingum vinveittir sem á svo sannarlega við um Risebye. Hann var mikill aðdáandi Muggs, en þeir hittust aldrei. Riesbye safnaði verkum hans og árið 1958 gaf hann Listasafni Íslands 46 verk eftir Mugg, en 1936 hafði hann reist honum legstein í Kirkjugarðinum við Suðurgötu með mósaíkmynd eftir sjálfan sig.

Elín lærði m.a. freskutækni og gerð mósaíkmynda hjá Riesbye. Nemendur veggmyndadeildarinnar fengu iðulega að spreyta sig á ýmsum stórum, opinberum verkefnum undir handleiðslu Risebye og þessi menntun skapaði  atvinnutækifæri að námi loknu. Ekki er vitað til þess að Elín hafi hagnýtt sér þessa þekkingu né unnið við veggmyndagerð.  Námið Hjá Risebye var henni mikilvæg hvatning til þess að vinna á nýjan og meðvitaðan hátt með liti; tækni hennar og litaskilningur breytist, hún hreinsaði litaspjald sitt og einfaldaði litavalið.  Oft lagði hún gagnsæjan lit lag ofan á lag oft í svölum tónum bláleitra og fjólublárra lita.

Námsferli Elínar var ekki lokið og veturinn 1962 skráði hún sig enn í Listaháskólann að þessu sinni í grafíkdeildina hjá Holger J. Jensen (1900-1966) Elín hafði alltaf haft mikinn áhuga á teikningu og þessi ástríða leiddi hana út á braut svartlistarinnar. Grafíkverk Elínar eru flest steinþrykk og viðfangsefni hennar þau sömu og í málverkinu; módel, andlit og hús. Íslenskur gagnrýnandi lýsti svartlistarverkum Elínar svo, að þau væru fremur átakalaus, hefðu yfir sér mildan blæ og bæru svip af langri dvöl listakonunnar í Danmörku.[3] Verkið Hauskúpa skipar sérstakan sess meðal grafíkverka hennar; þögul áminning um forgengileika og dauða. Memento mori.

Frá námslokum og til dauðadags var Elín skapandi listamaður og vann að list sinni, en var þó ekki afkastamikil. Málverkið skipar þar höfuðsæti en hún gerði einnig nokkrar grafíkmyndir eftir að námi lauk. Myndheimur hennar á sér rætur í akademískri hefð og þaðan má greina tvær meginlínur: Annars vegar portrettmyndir sem fjarlægjast fyrirmyndir sínar og verða að tjáningarríkum andlitum eða grímum með trúðslegu yfirbragði. Hins vegar landslagsmyndir, sérstaklega hús i landslagi, sem þróast yfir í landslag séð úr lofti þar sem mörkin milli abstraktsjónar og veruleika verða óljós. Hvert sem myndefni hennar var hélt hún alltaf trúnað við fastnjörvaða, kerfisbundna myndbyggingu sem rekja má til Lundstrøm og síðkúbismans eða lengra tilbaka til franska málarans Fernand Legér.

Veturinn sem Elín var við nám hjá Rieseby tók hún að teikna og mála portrett. Fyrirsæturnar voru oft vinir hennar úr dönsku listalífi, svo sem Gerde Swane og Julius Techkov.   Með stórum og einföldum formum og mettuðum litum leitast Elín við að fanga persónueinkenni fyrirmynda sinna fremur en að mála nákvæma eftirmynd þeirra. Sum þessara verka útfærði hún einnig  með freskutækni á gifsplötur. Einnig málaði hún tjáningarríkar sjálfsmyndir. Hún sýnir sjálfa sig á athugulan og yfirvegaðan hátt en undir niðri er þungur undirtónn.  Smám saman þróuðust portrettmyndir Elínar yfir í grímur eða trúðsleg andlit, birtingarmyndir hugmyndarinnar um að öll séum við einskonar trúðar og að lífið geti verið eins og fjölleikahús, tragikómískt og fáráðlegt. Andlitin eru ýmist góðlátleg og kómísk eða taka á sig martraðarkennda jafnvel djöfullega mynd. Stundum málar hún þessi andlit hvert fyrir sig eins og portrett af sálarástandi eða persónuleika. Í öðrum verkum fléttar hún saman andlitum eða verum á frásagnarkenndari hátt þar sem áleitin viðfangsefni svo sem ótti, skelfing og dauði taka á sig áþreifanlegar myndir. Angistin skín út úr andlitunum sem stundum virðast bæla niður óp eða veina átaklega í líkingu við veruna í hinu þekkta verki Ópið eftir Edward Munch. Þessi tjáningarríku andlitin eru mikilvægt leiðarstef í verkum Elínar sem hún málar með ýmsum tilbrigðum allt frá árinu 1962 og fram yfir aldamót.

Elín ferðaðist mikið suður á bóginn og á ferðum sínum málaði hún og teiknað það sem fyrir augu bar. Oft málaði hún smáþorp í landslagi; sólbökuð og litskrúðug þorp þar sem kirkjuturna ber við himin. Smám saman tók hún að umskrifa form húsanna yfir í ferninga sem hún sýnir frá breytilegu sjónarhorni með æ meiri áherslu á rýmið á milli formanna. Oft er eins og hún takist á loft, fljúgi yfir landið og sjái það úr lofti. Húsamyndirnar þróast yfir í abstrakt samspil ferninga og rétthyrninga á myndfletinum. Stundum bætir hún við enn einu grunnformi; hringnum, sem táknmynd sólarinnar, birtunnar og lífsins, einnig má sjá í verkum hennar krossform sem tákn dauðans og áminningu um að enginn kemst undan skugga hans. Þessar einföldu táknmyndir gefa verkunum dýpt og tengja þær tilvistarlegum hugleiðingum trúðamyndanna. Nýr fasi í gerð húsamyndanna hófst eftir gosið í Heimaey 1973 sem snerti Elínu djúpt. Í nokkrum verkum fjallar hún um hvernig jarðskorpan undir bænum rifnar, jörðin klofnar og rauður hraunstaumurinn gleypir húsin. Skelfing tortímingarinnar ógnar ekki bara einstaklingnum og sálarlífi hans heldur einnig umhverfinu; húsunum og bænum. Ógnin leynist allstaðar en tekur á sig ólíkar birtingarmyndir náttúrukrafta eða ófreskra andlita.

Á námsárunum og raunar lengur naut Elín fjárhagslegs stuðnings fjölskyldu sinnar til náms og listsköpunar. Þess vegna var hún ekki háð því að lifa af list sinni og segir að það hafi verið ein af orsökunum þess, að nánast þurfti að þvinga hana til að sýna verk sín opinberlega.[4] Önnur skýring á því hversu litið hún sóttist eftir opinberri  þátttöku í listheiminum var, að sökum afleiðinga heilahimnubólgu sem hún fékk sem barn, átti hún fullt í fangi með að takast á við hversdagslífið. Einföldustu hlutir uxu henni í augum og hún forðaðist allt það sem kom tilveru hennar úr skorðum, þar á meðal sýningahald. Þetta leiddi til þess að hún hélt aldrei einkasýningu á verkum sínum og lifði hálfgerðri skuggatilveru sem listamaður. Elín sýndi þó grafíkmyndir á Íslandi vorið 1968 í Bogasal Þjóðminjasafnsins ásamt Vigdísi Kristjánsdóttur veflistamanni og var það eina sýning Elínar hér á landi. Vigdís, sem hafði verið samtímis Elínu í Listaháskólanum, bar eflaust hitann og þungann af framkvæmdinni en Elín hélt sig til hlés.

Elín tók þátt í dönskum samsýningum og sýndi einnig með íslenskum konum í Jónshúsi í Kaupmannahöfn. Þetta voru yfirleitt stórar samsýningar og hún sýndi fá verk hverju sinni. Hún var virkur þátttakandi í Kvindelige Kunstneres Samfund en félagið var stofnað 1916 til að vinna að hagsmunamálum listakvenna. Aðildin að KKS var henni mikilvæg jafnt félagslega sem faglega. Hún tók þátt í mörgum sýningum á þeirra vegum sem og öðrum viðburðum og 1985 fékk hún íbúð á vegum félagsins, á Rolfsvej 10 á Frederiksberg þar sem hún bjó til dauðadags í samfélagi við tíu eldri listakonur.

Elín lést í Danmörku sumarið 2009. Hún átti enga afkomendur en systursynir hennar og erfingjar þeir Pjetur Hafstein Lárusson og Svavar Hrafn Svavarsson gáfu Listasafn ASÍ stærstan hluta þeirra verka sem hún skildi eftir sig. Það er hluti þessarar rausnarlegu gjafar sem prýðir veggi safnsins. Nú rúmum sextíu árum eftir að Elín lauk námi sínu hjá prófessor Lundstrøm við Listaháskólann í Kaupmannahöfn er fyrsta einkasýningin á verkum hennar haldin í Listasafni ASÍ, en segja má að þessi sýning hafi verið lengi í bígerð. Elín er komin heim.

 

 Elín Pjet. Bjarnason f. á Íslandi 30.6.1924 - d. í Danmörku 3.8.2009

 Menntun

1945-50 Listaháskólinn í Kaupmannahöfn. Málaradeild. Vilhelm Lundstrøm

1958-1959 Listaháskólinn í Kaupmannahöfn. Veggmyndadeild. Elof Risebye,

1962 Listaháskólinn í Kaupmannahöfn. Grafíkdeild. Holger J.Jensen

 Helstu samýningar

1956-61; Kunstnernes Efteraarsudstilling, Kaupmannahöfn

1958-1959 Akademielevernes påskeudstilling, Charlottenborg, Kaupmannahöfn

1960, 1963-65; Vorsýning á Charlottenborg, Kaupmannahöfn

1964-65; Haustsýning á Charlottenborg, Kaupmannahöfn

1964; Kunstnernes påskeudstilling, Árósum

1968; Haustsýning á Charlottenborg, Kaupmannahöfn

1968; Bogasalurinn. Með Vigdísi Kristjánsdóttur. Reykjavík

1970; Miniatur-kunst, Nikolaj, Kaupmannahöfn

1972, 1975, 1985 og 1995 Jónshús, Kaupmannahöfn

1986 Kvindelige Kunstneres Samfund. 70 års jubilæum. Køge kunstforening, Rådhuset og Køge Galleri, Køge

1988 Tolv Malerinder; Kvindelige kunstnere fra Legatlejligheden-Rolfsvej og medlemmer af Auroragruppen. Kvindemuseet, Árósum

1991 Kvindelige Kunstneres Samfund.75 års jubilæumudstilling. Nikolaj Kirke, Kaupmannahöfn

1995 Kvindelige Kunstneres Samfund i dag. Kvindemuseet, Árósum

2004 Frederiksberg på plakaten. Møstings Hus og Byggeriets hus, Frederiksberg

2006 Kvindelige Kunstneres samfund. 90 års jubilæumsudstilling. Portalen, Greve

2009 Klima. Kvindelige Kunstneres samfund. Gjethuset, Frederiksværk


Previous
Previous

Stofngjöfin

Next
Next

Kristinn Pétursson