Þorvaldur Skúlason (1906–1984)
Eldhúsborðið (Í eldhúsinu) / The Kitchen Table (In the Kitchen) ✦ 1941–1942
Olía á striga / Oil on canvas 🄯 131,5 x 91 cm
LA-112
„Verk Þorvaldar frá 1940 og fram að stríðslokum helgast af hlutbundnum expressjónisma. ... Í málverkum þessum er hann ekki að lýsa hlutunum hið ytra, heldur þeirri hugð sem þeir vekja af sér: ... Eldhúsborðið. ... Gamall blámálaður servantur, sem hefur mátt muna sinn fífil fegri, kastarhola, leirkrukka, og gott ef það eru ekki trosnaðar leirþurrkur sem hengdar eru fyrir gluggaborurnar. ... Sennilega hefur það þó alls ekki vakað fyrir listamanninum að segja okkur neitt um eldhúsgögn. ... Hann er miklu fremur að segja okkur frá huglægri reynslu sinni í nálægð þessara muna, frá þeirri hamingjukennd, þegar fersk morgunbirtan umleikur þessa fátæklegu hluti, sjá liti þeirra kvikna og hljóma saman. Myndin er að vísu samstilling, meðal hinna fegurstu sem íslenzk myndlist á, en í innsta eðli sínu er hún tjáning hamingjukenndar manns sem veit sig lifandi og nýtur til fulls með skilningarvitum sínum.“ [58]
Gunnlaugur Scheving (1904–1972)
Sjómenn (Fiskibátur) / Fishermen (Fishing Boat) ~ 1945
Olía á striga / Oil on canvas 🄯 69 x 98 cm
LA-21
Gunnlaugur segir um myndefni sín: „Ég hef sem sagt gert myndir af menneskjunni, eins og ég hef séð hana á sjó og landi, einnig af fiski og bátum: stundum hef ég málað fólk að heyskap og við skepnuhald, svona eins og ég hef kynnzt þessu – flatningshnífa, færibaujur og báta með strompum og margt fleira, einnig heysátur, steðja, orf og ljá, stundum smá hús í litlu kauptúni eða sjávarþorpi. Ég hef stúderað þessar fyrirmyndir og athugað rækilega bakgrunn myndanna – bryggjur, sýn til lands af bát, fisk úr grænu djúpinu, þorpið, fjöllin, sveitina. Í þessu hef ég þrælað og sett áhrifin eða niðurstöður rannsókna minna, eins og vísindamaður myndi segja, saman í myndir.“ [57]
Þorvaldur Skúlason (1906–1984)
Kompósisjón / Composition ✦ 1956
Olía á striga / Oil on canvas 🄯 45 x 45 cm
LA-114
„Jóni Stefánssyni sem lét sér svo annt um mig alla tíð urðu það mikil vonbrigði þegar ég fór að mála abstrakt og lá ekki á því. Einu sinni sagði hann þó um abstraksjónina: Þetta er ófær stefna í listum, en í þínum myndum er samt eitthvað sem örvar mig. Jón Stefánsson var gæddur ríkri ábyrgðartilfinningu, og leið önn fyrir að ekki skyldi vera til klassísk myndlist á Íslandi. Þeir litu þannig á þessir eldri málarar; okkar viðhorf voru önnur vegna þess að þeir höfðu starfað þessir menn. Þeir voru búnir að leggja undirstöðuna, trausta og öfluga. ... Ég og mín kynslóð uxum upp undir handarjaðri þessara stóru og njótum þeirra. Og þá má ekki gleyma Kjarval. Við vorum þessvegna djarfari að leggja á ný mið þegar við vorum búnir að sjá þessa menn fyrir okkur.“ [59]
Svavar Guðnason (1909–1988)
Einræðisherrann / The Dictator ✦ 1948–1949
Olía á striga / Oil on canvas 🄯 160 x 136 cm
LA-95
Árið 1948 voru listamannasamtökin Cobra stofnuð í París af dönskum, belgískum og hollenskum listamönnum. Þeir listamenn sem tilheyrðu danska Høst-hópnum urðu sjálfkrafa meðlimir, þar á meðal Svavar. Hann tók þátt í fyrstu sýningu Cobra í Kaupmannahöfn, en sökum flokkadrátta og illdeilna tók hann ekki þátt í frægustu sýningu hópsins sem haldin var haustið 1949 í Amsterdam. Það er ekki ólíklegt að Svavar hafi ætlað að sýna Einræðisherrann í Amsterdam. Verkið er málað veturinn 1948–49, en þá bjó Svavar í sumarbústað í túninu við Laxnes. Hann sýndi verkið í fyrsta sinn í snjóskafli við Gljúfrastein en síðan á sýningu í Listamannaskálanum vorið 1949. Sýningin var haldin í kjölfar óeirðanna á Austurvelli í marslok 1949 þegar inngöngu Íslands í NATO var mótmælt. Danska heiti verksins er Krigshunden og það er í raun hápólitískt. Aftan á verkið hefur Svavar límt úrklippu úr dönsku blaði: Svavar Guðnason, Krigshunden. Það táknar, eftir því sem sagt er, íslenskan ráðherra sem vildi selja Ísland til Ameríku. [64]
Jóhannes S. Kjarval (1885–1972)
Fjallamjólk / Mountain Milk ✦ 1941
Olía á striga / Oil on canvas 🄯 106 x 150 cm
LA-40
Þegar Ragnar Jónsson var spurður um hvaða mynd honum þætti mest gersemi í stofngjöf Listasafns ASÍ svaraði hann: „Ég er ekki í neinum vafa um það, að þar er mesta snilldarverkið Þingvallamyndin hans Kjarvals, sem hann kallar Fjallamjólk. Þar er samanþjöppuð í einum punkti hin mikla snilld málarans og allt það dásamlega rómantíska ofstæki, sem enginn á til nema Kjarval. [51]