Um safnið

Höfuðstöðvar Listasafns ASÍ eru í Guðrúnartúni 1 í Reykjavík. Safnið var stofnað árið 1961 þegar iðnrekandinn og bókaútgefandinn Ragnar Jónsson í Smára gaf Alþýðusambandinu listaverkasafn sitt. Safnið er eign Alþýðusambands Íslands og starfar samkvæmt reglugerð samþykkri af miðstjórn þess. Ragnar í Smára lagði grundvöllinn að listasafninu með því að gefa ASÍ málverkasafn sitt – 147 myndir, flestar eftir þekktustu myndlistarmenn þjóðarinnar; Ásgrím Jónsson, Gunnlaug Scheving, Jóhannes Kjarval, Jón Stefánsson, Júlíönu Sveinsdóttur, Nínu Tryggvadóttur, Svavar Guðnason, Þorvald Skúlason og fleiri. Ósk Ragnars var sú að stofnað yrði listasafn sem kæmi listinni á framfæri við vinnandi fólk í landinu.

Listasafn ASÍ hefur alla tíð starfað með þetta að leiðarljósi og hefur m.a. sérhæft sig í myndlistarsýningum sem settar eru upp á vinnustöðum og í stofnunum víða um land. Úr svarbréfi miðstjórnar ASÍ til Ragnars í Smára frá árinu 1961 þegar ASÍ þáði að gjöf listaverkasafn Ragnars: “Miðstjórn Alþýðusambandsins gerir sér ljóst að vandi mikill fylgir þeirri vegsemd, að “samtök íslenzkra erfiðismanna“ taki að sér varðveizlu og ávöxtun þessara dýrmætu listaverkafjársjóða, en það er von vor, að Alþýðulistasafninu verði um alla framtíð vel borgið í fóstri Alþýðusambands Íslands.” Listaverkaeign safnsins hefur vaxið jafnt og þétt. Safninu hafa í gegn um tíðina borist margar góðar gjafir. Stærst þessara gjafa eru fjölmörg verk Kristins Péturssonar sem safnið fékk að honum látnum. Aðrar stórar gjafir til safnins eru dánargjöf Margrétar Jónsdóttur, ekkju Þórbergs Þórðarsonar sem gaf safninu verk eftir ýmsa listamenn og gjöf Ástu Eiríksdóttur, ekkju Svavars Guðnasonar sem gaf safninu verk eftir Svavar. Fjöldi listamanna hefur gefið safninu verk. Einnig hefur verið leitast við að auka safnkostinn með innkaupum á íslenskri samtímalist.

Listasafn ASÍ hefur tímabundið ekki yfir eigin sýningarsal að ráða en skipuleggur sýningar í samstarfi við önnur söfn og samtök um allt land. Auk þess að sýna verk úr safneigninni er safnið virkur vettvangur fyrir sýningar á samtímalist. Árlega eru skipulagðar 4-8 sýningar í samstarfi við önnur söfn og samtök víðsvegar um landið.

Starfsmenn safnsins

Elísabet Gunnarsdóttir safnstjóri

Hanna Hlíf Bjarnadóttir safnbúð og vinnustaðasýningar

Listráð safnsins skipa: Elísabet Gunnarsdóttir formaður, Dorothée Kirch og Daníel Björnsson.

Rekstrarstjórn safnsins skipa: Eyrún B Valdsdóttir formaður, Bjarni Þór Sigurðsson og Hilmar Harðarson.


Reglugerð fyrir Listasafn ASÍ

Persónuverndarstefna Listasafns ASÍ