Kristinn Pétursson
Kristinn Pétursson var listamaður sem á sínum tíma naut takmarkaðrar hylli, en tímabært er að skoða feril hans nánar, einkum áhugaverðar tilraunir hans undir lok ferils síns sem og skrif hans um myndlist. Hvorugt kom fyrir sjónir almennings á meðan Kristinn var á lífi.
Kristinn var snemma ákveðinn í því að leita sér mennta og hneigðist að myndlist þrátt fyrir erfið ytri skilyrði svo sem veikindi og takmarkaðan myndlistaraðgang. Að loknu kennaraprófi frá Kennaraskólanum sótti Kristinn tíma í teikningu hjá Þórarni B. Þorlákssyni og einnig Guðmundi Thorsteinssyni (Mugg) áður en hann hélt til Noregs 1923. Þar nam hann fyrst eitt ár við listiðnaðarskólann í Voss en komst þá inn í Listaakademíuna í Osló og lauk þaðan námi 1927. Í Noregi lagði Kristinn fyrst stund á höggmyndalist en snéri sér síðan að málverkinu og valdi þá framsækna deild Axel Revold. Kristinn kynnti sér líka grafík og vann eirstungur, fyrstur Íslendinga. Hann sótti nám til Parísar og Kaupmannahafnar, fór reglulega utan til þess að sjá helstu samtímalistviðburði auk þess að ferðast til að kynna sér listasöguna af eigin raun í Evrópu, Egyptalandi og Austurlöndum nær.
Kristinn settist að í Hveragerði árið 1940 líkt og fleiri listamenn á þeim tíma. Þar byggði hann sér rúmgóða vinnustofu, Seyðtún, nú Bláskógar 6, sem var heimili hans síðustu 41 ár ævinnar en á þeim árum var hann hvað djarfastur í sínum tilraunum. Þar hélt hann sína síðustu sýningu árið 1945 en eftir það hélt hann sig til hlés og vann að verkum sínum í kyrrþey. Í verkum Kristins má sjá ýmsa stíla. Til að byrja með vann hann fígúratíf verk, landslag og sótti í þjóðlega arfleið en stöðug þekkingarleit hans leiddi hann á nýjar slóðir. Hann vildi þróa persónulegan stíl, fyrst í landslagsverkunum með áherslu á verðurfar, form og liti, þá tók við tímabil fantasíu og súrrealisma þar sem hann vann m.a. með skynjun og drauma. Síðar verða formtilraunir hans enn framsæknari, verkin óhlutbundin og hann fer einnig að vinna þrívíðar formtilraunir. Kristinn var heimspekilega sinnaður, ritaði dagbækur og skráði niður ýmsar hugleiðingar um myndlist. Allnokkurt safn málverka og teikninga liggur eftir Kristin, en síðustu skúlptúrar hans – ef til vill þau verk sem helst myndu vekja forvitni í dag – eru með öllu horfnir. Stærsta safn verka hans er í eigu Listasafns ASÍ.