Sigrid Valtingojer

Safn verka Sigrid Valtingojer (1935-2013)

Árið 2013 fékk Listasafn ASÍ afhent dánargjöf Sigrid Valtingojer, en hún arfleiddi safnið af öllum verkum sínum að sér látinni auk höfundarréttar. Í safninu eru um 300 grafíkverk, flest þeirra í nokkrum eintökum.

Eftir að hafa starfað sem auglýsingateiknari um árabil innritaðist Sigrid við grafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk námi þaðan 1979. Hún stofnaði eigið verkstæði og vann þar til dauðadags. Hún vann verk sín með mismunandi tækni og í safninu er að finna ætingar/akvatintur, dúkristur, tréristur, frottageverk, carbarundum og þurrnál. Íslenskt landslag var uppspretta margra verka hennar. Hún einfaldar  og stílfæra form náttúrunnar eða brýtur þau upp og endurraðar þeim. Í öðrum verkum má greina pólitískan undirtón, en hún lét sér m.a. annt um örlög Palestínubúa og flóttamanna.  Sigrid var heimsborgari, ferðaðist mikið og sýndi verk sín erlendis m.a. á Ítalíu þar sem hún hlaut fyrstu verðlaun á alþjóðlegri grafíksýningu árið 1983. Hún hélt fimm einkasýningar í Listasafni ASÍ, síðast árið 2010.

Hrafnhildur Schram

MINNINGARORР UM  LISTFERIL  SIGRIDAR VALTINGOJER

 Margir sem hér eru minnast eflaust  síðustu  einkasýningar   Sigridar á  Íslandi í tilefni  af  sjötíu  og fimm ára afmæli hennar árið 2010.  Sýningin  bar  heitið  „Þögul spor“ og  fjallaði um  örlög  innflytjenda  og  vandamál  sem  geta skapast  í sambúð manna af  ólíkum uppruna  en gefið  um  leið von  og  tækifæri  til  að  lifa  mannsæmandi   lífi.  Þetta voru  grafíkverk þar  sem hún notaði  m.a. bókstafi  og  tölustafi sem hún bjó til sjálf og lék sér með, kannski minnug  þess að stafir eru meðal margra  fjarlægra  þjóða,  í senn tákn og myndverk. Sjálf  hafði  Sigrid, tíu ára gömul,  flúið  ásamt  fjölskyldu sinni   frá  Súdetahéruðunum  í  núverandi Tékklandi til Austur-Þýskalands  og  síðan yfir  til Vestur-Þýskalands, svo hún  þekkti vel  öryggis- og  réttleysi  flóttafólks.  

Örlög  eða tilviljun  réðu  því  að Sigrid  skolaði á land á Íslandi  og  það var  ást við fyrstu sýn. Hún sagði síðar  að  henni  hafi fundist að þannig hlyti heimurinn að hafa litið út þegar sköpun hans átti sér stað.

Hér átti  Sigrid  farsælan  starfsferil  sem  auglýsingateiknari   í  hátt á annan  áratug   en settist síðan í  grafíkdeild  Myndlista-  og handíðaskóla Íslands. Hún var  því  komin vel  á fimmtugsaldur þegar hún útskrifaðist  árið 1979  og  hóf  sjálfstæðan  listferil  á  eigin  grafíkverkstæði.  Þar  naut  hún  langrar  reynslu  sinnar  við  teikniborðið  en  teikningin er undirstaða  grafíklistarinnar.  Hún vakti  athygli  fyrir afar vönduð  og  öguð vinnubrögð  og  náði á skömmum tíma  skjótum frama  í  list sinni.   Áttundi  og  níundi  áratugirnir   voru  blómaskeið   íslenskrar  grafíklistar   sem vakti  mikla  og almenna  athygli.  Jafnvel  þótt margir  samferðarfélagar Sigridar sneru síðar  baki við  þessum miðli  hélt hún  sér sig hins vegar allan sinn feril  við grafíkina. Framan af ferlinum  varð  íslenskt  landslag  uppsprettan  að  verkum  hennar  en  þó  ekki  viðfangsefnið  sjálft  heldur  einungis miðill til að tjá  ákveðnar  tilfinningar. Hún taldi sig verða  að brjótast úr viðjum hinna  þekkjanlegu landslagsforma  en vildi  ekki  missa sjónar á landslaginu. Hún varð fyrst íslenskra grafíklistamanna  til að  einfalda og stílfæra form náttúrunnar þannig að eftir stóð aðeins kjarninn einn. Einföld og sterk  verk  sem túlka má sem almenn fyrirbæri fremur en ákveðið  nafngreint  landslag. Um 1993 tók hún að brjóta  upp náttúruformin  og  klippti í sundur ætingarplötur, felldi þær saman að nýju  og  dreifði um flötinn.  Þörfin fyrir meiri tjáningu í lit leiddi til þess að  hún sneri sér að tréristunni en með henni gafst henni kostur  á að nota fleiri liti  og samtímis  fjarlægjast enn meir hinn sýnilega veruleik.

Stöðug  þróun hennar  í  leit að nýjum tjáningarformum  í  rökréttu  samhengi einkenndi  feril hennar frá upphafi. Sigrid  var heimsborgari  í  orðsins fyllstu merkingu  og  tók  þátt í fjölmörgum alþjóðlegum  samsýningum  víða um heim,  auk þess sem  hún hélt  á þriðja tug einkasýninga  í Evrópu. Hún  kom  aftur  heim færandi hendi  og  deildi með  vinum  og umhverfi  reynslu sinni og  upplifun,  í  frásögnum, ljósmyndum, sýningarskrám   og  exótísku  góðgæti.

Previous
Previous

Kristinn Pétursson